Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. október 2023 Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp á Hafnasambandsþingi 2023

Ávarp á 11. hafnafundi Hafnasambands Íslands 20. október 2023

Ágætu fundarmenn,

Það er ánægjulegt að geta verið með ykkur í dag. Ég átti því miður ekki kost á að vera með ykkur á þingi ykkar í Ólafsvík í fyrra og árin tvö þar kom heimsfaraldur í veg fyrir að ég gæti verið með ykkur á staðfundi.

Í erindi mínu ætla að fara yfir helstu mál er varða hafnir sem eru í vinnslu í ráðuneytinu mínu. Sum þeirra sé ég að eru á dagskrá fundarins í dag og verða þar rædd í meiri þaula.

Samgönguáætlun

Fyrst vil ég fara yfir samgönguáætlun. Fyrir viku síðan mælti ég fyrir þingsályktunartillögu á Alþingi um nýja samgönguáætlun, þ.e. fyrir árin 2024 – 2038 ásamt fimm ára aðgerðaráætlun fyrir árin 2024 – 2028.

Vandlegur undirbúningur liggur að baki þessari áætlun. Stefnumótunarferlið hófst í byrjun árs 2021 með vinnslu grænbókar, þ.e.a.s. stöðumats um málaflokkinn ásamt tillögum að valkostum til framtíðar. Því næst var unnin hvítbók, en í henni birtust drög að stefnu málaflokksins. Við vinnslu beggja bóka voru haldnir opnir fundir í hverjum landshluta, þar sem fram fóru umræður um áherslumál hvers þeirra og þátttakendum gafst færi á að koma áherslum sínum og skoðunum á framfæri. Bæði grænbókin og hvítbókin fóru í opið samráð í Samráðsgátt stjórnvalda og að endingu fóru drög að þingsályktun um samgönguáætlun einnig í Samráðsgátt.

Samgönguáætlun er lögð fram með hliðsjón af fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028 þar sem meginverkefnið er að draga úr þenslu í þjóðfélaginu og þar með halda aftur af ríkisútgjöldum. Aukist svigrúm mun það hafa jákvæð áhrif á ramma samgönguáætlunar.

Lykilviðfangsefnin næstu ár verða áfram öryggi og fækkun slysa sem og uppbygging, viðhald og þjónusta samgöngumannvirkja. Þá skal þróun samgangna mæta þörfum samfélagsins þar sem áhersla er á umhverfis- og loftslagsmál, breyttar ferðavenjur, ólíkar þarfi barna, ungmenna og fatlaðs fólks í samgöngum sem og nýsköpun og þróun í samgöngumálum.

Í tillögunni er grunnnet samgangna skilgreint sem þau samgöngumannvirki sem bera meginþunga samgangna. Það samanstendur meðal annars af 37 umferðarmestu höfnunum. Uppbygging þessa nets, viðhald þess og rekstur eru í forgangi við ráðstöfun fjármuna á samgönguáætlun.

Ef við horfum sérstaklega á framlög til hafna þá er lagt til að áfram verði haldið áfram í átakinu í uppbyggingu hafna sem hófst eftir að heimsfaraldur skall á. Þannig gerir áætlunin ráð fyrir að á næstu fimm árum fari 7,7 milljarðar króna í hafnabótasjóð. Það má segja að áður hafi um milljarði verið varið í þennan málaflokk á ári en nú er talan rúmlega 1,5 milljarður á ári. Með þessu móti tekst okkur að fjármagna stórar framkvæmdir, t.d. í Þorlákshöfn, Njarðvíkurhöfn og á Sauðárkróki.

Þá er í tillögunni lagt til að áfram verði stutt við hafna- og strandrannsóknir sem verða kostaðar af ríkinu.

Í þessum tölum eru ekki taldar framkvæmdir hjá Faxaflóahöfnum sf., Fjarðabyggðarhöfnum, Hafnarfjarðarhöfn og Kópavogshöfn en þessir fjórir hafnarsjóðir fjármagna að fullu sínar framkvæmdir með eigin aflafé.

Samgönguáætlun er nú til meðferðar hjá umhverfis- og samgöngunefnd og veit ég að Hafnasambandið fengið málið til umsagnar.

Frumvarp

Næst vil ég segja nokkur orð um laga- og reglugerðarbreytingar sem eru fram undan á sviði hafnamála. Í næsta mánuði mun ég mæla fyrir frumvarpi um breytingu á hafnalögum. Í frumvarpinu eru að finna ákvæði sem hafa verið til umræðu um nokkurt skeið og drög að þessu frumvarpi voru kynnt á samráðsgátt stjórnvalda í febrúar á þessu ári.

Helst ber að nefna að í frumvarpinu verður lagt til að sett verði ákvæði um eldisgjald sem heimilar höfnum að taka gjald fyrir þjónustu við fiskeldisfyrirtæki. Þá verður kveðið á um afmörkun hafnarsvæða á sjó. Í eldri tillögu sem birtist í samráði reyndi ráðuneytið að búa til eina skilgreiningu á hafnarsvæði á sjó. Hafnasambandið benti réttilega á að sú útgáfa hefði haft veruleg fjárhagsleg áhrif á starfsemi hafna. Var brugðist við þessu og eftir frekara samráð verður lagt til að fjögur svæði verði skilgreind, þar á meðal þjónustusvæði. Tel ég að með þessu hafi verið fundin lausn sem kemur til móts við ykkar þarfir og leysir um leið þær lagalegu áskoranir sem leiðir af núverandi reglum. Það verður einnig lagt til að hafnarsvæði verði afmörkuð með baughnitum. Höfnum landsins verður veittur rúmur frestur til að afmarka þessi hafnarsvæði.

Í frumvarpinu verða auk þessa ákvæði um rafræna vöktun í höfnum. Ákvæði um hafnsögu, sem eru í dag í lögum um vakstöð siglinga, verða færð í hafnalög. Þá verður kveðið á um heimildir Samgöngustofu um að mæla fyrir um aðgangsbann skipa ef þau hafa gerst brotleg við reglur. Þá verður ákvæði um kærur á ákvörðunum hafna, endurskoðuð.

Umhverfismiðuð gjaldtaka

Ég tel rétt í þessu sambandi að minnast á umhverfismiðaða gjaldtöku hafna. Eins og þið þekkið var frumvarp um breytingu á hafnalögum samþykkt á síðasta þingi. Í því voru að finna ákvæði sem gera ráðuneytinu kleift að innleiða reglugerð Evrópusambandsins um veitingu þjónustu í höfnum og fjármálalegt gagnsæi hafna. Ráðuneytið mun á komandi dögum birta drög að reglugerð á samráðsgátt stjórnvalda sem innleiðir þessar reglur sem við erum skuldbundin til að innleiða samkvæmt EES-samningnum. Ná þær til þeirra hafna sem eru á hinu svokallaða sam-evrópska flutninganeti.

Með þessum lagabreytingum var höfnum, sem reknar eru í hlutafélagaformi, jafnframt veitt heimild til að taka upp umhverfismiðaða gjaldtöku. Faxaflóahafnir hafa tekið upp þetta fyrirkomulag og miða við matsfyrirkomulag EPI eða Environmental Port Index. Það var upphaflega ætlun ráðuneytisins að láta þessa heimild einnig ná til hafna sem eru í eigu sveitarfélaga. Þær hafnir eru hins vegar í annarri stöðu lagalega en hafnir sem eru rekin í hlutafélagaformi.

Í stuttu máli má segja að hafnir í eigu sveitarfélaga eru bundin af reglum sem gilda um skatta og þjónustugjöld. Gjaldtaka hafna er í formi þjónustugjalda, þ.e. þegar hafnir veita tiltekna þjónustu eiga gjöldin að standa straum af því að veita þá þjónustu. Það þarf sem sagt að vera samband á milli gjaldtökunnar og þjónustunnar sem er veitt. Ef álag er lagt á hafnargjöld eins og gert er með umhverfismiðaðri gjaldtöku þá væri í skilningi stjórnarskrárinnar verið að leggja á skatt þar sem það er í raun engin viðbótarþjónusta veitt í staðinn fyrir álagsgreiðsluna. Stjórnarskráin gerir miklar kröfur um það hvernig skattlagningu skuli háttað. Það verður að mæla með mjög skýrum hætti í lögum á um hversu hár skatturinn er í hverju tilviki. Það er flókið verkefni í þessu tilviki þegar álag eða afsláttur er breytilegur eftir því hversu umhverfisvæn skip eru.

Ég hef því fengið Lagastofnun Háskóla Íslands til að vinna álitsgerð um þetta álitaefni og er það í vinnslu. Niðurstöður þeirrar vinnu verða mikilvægar til að við getum unnið málið áfram. Það er mikilvægt að hér sé vandað til verka.

Heildarendurskoðun

Nú hef ég rakið það sem er á döfinni en það þarf einnig að horfa lengra fram á veginn. Í vor sendi Hafnasambandið ráðuneytinu drög að nýjum heildarlögum um hafnir. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá góðu vinnu. Hafnalögin, sem við störfum eftir í dag, hafa nú verið í gildi í tuttugu ár og ég held að það megi segja að tilkoma þeirra hafi verið framfaraskref í málefnum hafna. Ég tel hins vegar rétt, þegar vinnu hefur verið lokið við frumvarpið sem fer fyrir þing í vetur, að huga að heildarendurskoðun á lögunum. Í drögunum koma fram ýmsar hugmyndir sem ég tel rétt að horft verði til í þeirri vinnu. Verður sú vinna unnin í góðu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Hafnasamband Íslands. Einnig er mikilvægt að hagsmunaaðilar úr atvinnulífinu hafi aðkomu að þeirri vinnu.

Orkuskipti

Eitt af þeim verkefnum sem stjórnvöld vinna að í tengslum við aðgerðir í loftslagsmálum eru orkuskipti í haftengdri starfsemi. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er þetta stórt áherslumál. Þar kemur m.a. fram að stutt verði áfram við orkuskipti í samgöngum um land allt, þ.m.t. í ferjum og höfnum. Árangur hefur náðst í þessum efnum og var afar ánægjulegt að fá að vera viðstaddur og vígja landtengingu fyrir skemmtiferðaskip í Faxagarði í síðasta mánuði. En betur má ef duga skal.

Stjórnvöld styrkja orkuskiptaverkefni fyrst og fremst í gegnum Orkusjóð. Ríkisstjórnin hefur aukið fjármagnið í sjóðinn umtalsvert á síðastliðnum árum og í síðasta mánuði var tilkynnt um úthlutun til orkuskiptaverkefna, samtals fyrir 914 milljónir króna. Verkefni í höfnum í Hornafirði og á Norðurlandi voru meðal þeirra sem voru styrkt.

En eins og stjórn Hafnasambandsins hefur fjallað um í bókun sem hún gaf út í framhaldi af úthlutuninni þá fengu stór verkefni hjá Faxaflóahöfnum, á Akureyri, Hafnarfirði og Vestmannaeyjum ekki styrk sem sótt hafði verið um. Hér er um dýrar framkvæmdir að ræða, eins og þið vitið. Það er ljóst að Evrópureglur munu gera kröfu um að stærstu hafnir landsins hafi yfir að ráða háspennutengingum árið 2030. Leiðir það af svokallaðri Fuel Maritime gerð um orkunotkun í siglingum sem samþykkt hefur verið innan ESB.

Kostnaður við eina svona tengingu getur hlaupið á milljörðum og duga 914 milljónir króna skammt í því sambandi. Ísland mun einnig innleiða nýjar reglur sem víkka út viðskiptakerfi með losunarheimildir þannig að þær munu ná til sjóflutninga. Með þessu mun Ísland fá tekjur af sölu þessara heimilda. Það er mikilvægt að þessar tekjur nýtist við að stuðla að orkuskiptum, m.a. þannig að þessar hafnir verði í stakk búin til að uppfylla kröfur sem settar eru á þær.

Þá verður einnig að tryggja að til staðar sé næg orka þannig að öruggt sé að skip sem leggist að höfn geti tengst.

Lokaorð

Góðir fundarmenn,

Ég vil að lokum fyrir bæði mína hönd og ráðuneytisins þakka fyrir góða samvinnu við ykkur. Eins og ég hef minnst á hafa félagsmenn Hafnasambandsins komið með mikilvæg innlegg sem hafa nýst okkur vel í vinnu ráðuneytisins. Öll viljum við stefna í sömu átt, að tryggja öryggi og efla uppbyggingu hafna á landsvísu.

Ég óska ykkur velfarnaðar í ykkar mikilvægu störfum.


 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum