Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. ágúst 2023 InnviðaráðuneytiðSigurður Ingi Jóhannsson

Ávarp á stöðufundi um samstarfsverkefnið Byggjum grænni framtíð

Ávarp á stöðufundi um samstarfsverkefnið Byggjum grænni framtíð 22. ágúst 2023

Góðir áheyrendur.

Mannkynið stendur frammi fyrir ýmsum alvarlegum áskorunum og ein stærsta áskorunin á heimsvísu er baráttan við losun gróðurhúsalofttegunda. Þessi áskorun snertir ólíka málaflokka í mörgum ráðuneytum og við í innviðaráðuneytinu förum ekki varhluta af því. Í mannvirkjaiðnaði tengist áskorunin meðal annars húsnæðis-, skipulags- og byggingarmálum, vegagerð og öðrum samgöngumálum og allt tengist þetta sveitarstjórnarmálum sterkum böndum ásamt fleiri málaflokkum sem innviðaráðuneytið leiðir innan stjórnsýslunnar. 

Ljóst er að mannvirkjagerð veldur um 30-40% af heildarkolefnislosun á heimsvísu. Ísland hefur þó nokkra sérstöðu miðað við önnur lönd. Orkunotkun mannvirkja á Íslandi, bæði hvað varðar upphitun og rafmagn, hefur í marga áratugi verið frá orkugjöfum sem ekki byggja á brennslu kolefna. Flest Evrópulönd leggja megináherslu á að hverfa frá notkun kolefna við orkuframleiðslu til að ná markmiðum sínum um aukna sjálfbærni mannvirkjaiðnaðarins. Hverjar eru þá helstu áherslur okkar Íslendinga til að ná markmiðum um minni kolefnislosun mannvirkjaiðnaðarins? 

Jú, þökk sé verkefninu Byggjum grænni framtíð, sem einmitt er viðfangsefnið hér í dag, erum við loksins komin með gróf töluleg gildi um kolefnislosun mannvirkjagerðar hér á landi. Talið er að um 58% af kolefnislosun mannvirkjaiðnaðar á Íslandi séu vegna byggingarefna, framkvæmda og flutnings, um 30% séu vegna orkunotkunar í rekstri og um 12% vegna viðhalds. 

Stefna innviðaráðuneytisins um vistvænni mannvirkjagerð er mjög skýr og á meðal annars rætur sínar að rekja til aðgerðar C3 í aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. Eins hafa Norðurlöndin sameiginlega stefnu um sjálfbærni í byggingariðnaði og tekur ráðuneytið fullan þátt í þeirri samvinnu. Samtímis er unnið að regluverki á þessu sviði á vegum Evrópusambandsins og við fylgjumst vel með þeirri vinnu.  

Ég ætla að nota tækifærið hér til að lýsa í örstuttu máli fjórum verkefnum ráðuneytisins og HMS, sem eru í fullri vinnslu og eru að skila okkur miklum árangri í vegferð okkar í átt að aukinni sjálfbærni byggingariðnaðarins. 

Í fyrsta lagi nefni ég verkefnið sem er til umfjöllunar hér í dag - Byggjum grænni framtíð. Það hefur verið unnið í mjög góðri samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs, en HMS heldur utan um vinnuna. Mikið framfaraskref var stigið þegar samstarfsvettvangurinn gaf út „Vegvísi um vistvænni mannvirkjagerð“. Í vegvísinum voru birtar í fyrsta sinn tölur um losun vegna íslenskra bygginga, en það eru þær tölur sem ég nefndi áðan. Auk þess voru markmið skilgreind um vistvænni mannvirkjagerð til ársins 2030 og 74 skýrar og greinargóðar aðgerðir kynntar til að ná þessum markmiðum. Nú þegar hefur 13 aðgerðum verið lokið og 48 aðgerðir eru í vinnslu samkvæmt áætlun. Markmiðin og aðgerðirnar um að draga úr losun eru vel unnin og skýr, og eru þeim mörgu aðilum sem komu að vinnunni til sóma. Í því sambandi er gaman að segja frá því að horft hefur verið til þessa verkefnis sem sterkrar fyrirmyndar fyrir loftslagsvegvísa annarra atvinnugreina á Íslandi. 

Í öðru lagi er ástæða til að nefna mjög stórt og viðamikið norrænt samstarfsverkefni sem kallast Nordic Sustainable Construction. Árið 2019 samþykktu norrænir ráðherrar húsnæðis- og byggingarmála stefnu um sjálfbærni í byggingariðnaði, sem miðar að því að setja samhæfðar norrænar kröfur um aukna sjálfbærni í regluverki byggingariðnaðarins. Í framhaldinu ákvað Norræna ráðherranefndin að veita rúmlega tveimur milljörðum króna til að styðja við þessa samvinnu. Þaðan fær innviðaráðuneytið samtals um 120 milljónir króna á árunum 2022 til 2024, til að vinna íslenskan hluta verkefnisins og tryggja samvinnu við hin Norðurlöndin. Verkefninu er stýrt af innviðaráðuneytinu en samstarfsvettvangurinn Grænni byggð sér um framkvæmd þess, ásamt HMS og umhverfis- og byggingarverkfræðideild Háskóla Íslands, og rennur megnið af norræna styrknum til þessara aðila. Ef öll Norðurlöndin geta sett fram samhæft og heildstætt regluverk um þessi mál mun það hafa mjög sterk áhrif á vinnu Evrópusambandsins. 

Í þriðja lagi ber að nefna Ask – mannvirkjarannsóknarsjóð sem innviðaráðuneyti og háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti settu á fót árið 2021. Alls hafa 62 verkefni þegar hlotið styrk úr sjóðnum í tveimur úthlutunum. Mörg þeirra tengjast beint aðgerðunum sem kynntar eru í áðurnefndum Vegvísi sem Byggjum grænni framtíð gaf út – á meðan önnur verkefni stuðla að vistvænni mannvirkjagerð með óbeinum hætti, til dæmis með því að stuðla að lengri líftíma mannvirkja. Ljóst er að einn af lykilhvötum í vistvænni vegferð okkar eru styrkir úr Aski – mannvirkjarannsóknarsjóði og því mikilvægt að styðja við og efla sjóðinn þegar til framtíðar er litið. Nefna ber að þriðja úthlutunin úr sjóðnum verður auglýst eftir rúman mánuð.

Í fjórða lagi vil ég nefna að í ríkisstjórnarsáttmálanum er lögð áhersla á endurskoðun regluverks mannvirkjamála með það fyrir augum að innleiða stafræna stjórnsýslu í auknum mæli, einfalda umgjörð um byggingariðnaðinn og stuðla að vistvænni mannvirkjagerð og samdrætti í losun frá byggingariðnaði, án þess að það sé á kostnað gæða og algildrar hönnunar. Starfshópar um þetta mikilvæga verkefni eru komnir á fulla ferð og fullmótuðum tillögum þeirra er að vænta eftir rúmt ár. Hluti þessa verkefnis er að innleiða þær samhæfðu norrænu reglur sem nú er unnið að innan norræna verkefnisins Nordic Sustainable Construction, sem ég nefndi áðan.

Ég tel jafnframt ástæðu til að nefna sérstaklega að ein skilvirkasta aðferðin til að draga úr losun í byggingariðnaði er að nýta okkur þegar byggð mannvirki í stað þess að rífa allt gamalt og byggja nýtt. Eitt dæmi er gamla byggingin sem hýsti Hótel Sögu við Hagatorg í Reykjavík. Kostnaður við að breyta núverandi byggingu er sambærilegur við það að byggja nýtt hús, en með því að endurnýta bygginguna minnkar allur úrgangur og uppgröftur gríðarlega, sem og kolefnislosun vegna nýrra byggingarefna, framkvæmda og flutnings. Hugsið ykkur ef húsið hefði verið mulið niður. Hugsið ykkur alla vinnuna við að flokka þann úrgang og flutning hans til geymslu eða urðunar. Og vinnuna við að grafa gríðarstóra holu til að geta byggt grunn nýrrar byggingar. Og alls þess úrgangs og flutnings sem það hefði orsakað. Ljóst er að við Íslendingar verðum að leggja aukna áherslu á endurnýtingu og endurnotkun núverandi bygginga og byggingarefna. 

Losun mannvirkjageirans er mikil og markmið okkar háleit. Grunnforsenda þess að árangur náist felst ekki bara í því að stjórnsýslan vinni þau verkefni sem ég nefndi hér að framan – heldur þurfa allir hagaðilar í virðiskeðju byggingariðnaðarins að greina eigin vistvæn úrbótatækifæri og hrinda þeim í framkvæmd hið fyrsta. Okkur hefur borið gæfa til að varða saman hina vistvænu leið byggingariðnaðarins, í gegnum samvinnuna við útgáfu Vegvísisins - og við höfum þegar lagt af stað í þann góða leiðangur. Höldum áfram, fáum fleiri til að slást í hópinn og göngum í styrkum takti – enda er það er bæði miklu skemmtilegra og vænlegra til árangurs.

Góðir áheyrendur. 

Ef ekki tekst að koma böndum á losun gróðurhúsalofttegunda og auka sjálfbærni er hætta á stórfelldri röskun á lífríki jarðar og lífsskilyrðum komandi kynslóða. Vandinn verður mestur fyrir afkomendur okkar svo það er á okkar ábyrgð að haga lifnaðarháttum okkar í sátt við umhverfið. Að fylgja eftir aðgerðum, s.s. Vegvísis að vistvænni mannvirkjagerð 2030 sem er mikilvægt skref í þessa átt.

Við verðum að taka höndum saman, efla rannsóknir og nýsköpun, þróa nýja tækni og aðferðir svo að við taki tímar sjálfbærni í stað sóunar. 
Ég vil þakka ykkur öllum sem komið hafið að vinnu samstarfsvettvangsins Byggjum grænni framtíð og sérstaklega fyrir það mikilvæga framfaraskref sem stigið var með útgáfu Vegvísis um vistvænni mannvirkjagerð.

Að lokum vil ég minna á að Húsnæðisþing 2023 verður haldið á Hótel Nordica eftir rúma viku, miðvikudaginn 30. ágúst, og ég hvet ykkur til að fylgjast með þeim mikilvæga viðburði, annað hvort á staðnum eða í streymi. Dagskráin er fjölbreytt og metnaðarfull en af þeim atriðum sem tengjast þessum fundi verður meðal annars fjallað nánar um vinnuna við endurskoðun byggingarreglugerðar og sagt frá þeirri samræmdu aðferðafræði sem verið er að þróa til að reikna út kolefnisspor íslenskra bygginga, eða svokallaðar lífsferilsgreiningar bygginga. Hægt er að skrá sig á vefnum husnaedisthing.is.

Ég óska ykkur alls velfarnaðar í störfum ykkar og vona að okkur takist í sameiningu að hanna mannvirki nútímans með kröfur framtíðarinnar að leiðarljósi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum