Hoppa yfir valmynd
13. september 2012 Forsætisráðuneytið

Þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar 2012-2013

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. þingskapalaga nr. 55/1991, með síðari breytingum, skal fylgja stefnuræðu forsætisráðherra yfirlit um þau mál sem ríkisstjórnin hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 141. löggjafarþing fer hér á eftir. Málunum er skipt í flokka eftir því hvort um er að ræða ný þingmál eða endurflutt og jafnframt eru mál til innleiðingar á EES-gerðum auðkennd sérstaklega. Þá kemur fram  hvort ætlunin er að leggja mál fram að hausti eða vori. Flutt kunna að verða fleiri frumvörp en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra frumvarpa. Jafnframt eru taldar upp fyrirhugaðar tillögur til þingsályktana og helstu skýrslur sem ætlunin er að leggja fram. Eins og fram kemur í 2. mgr. 47. gr. l. nr. 55/1991 mun ríkisstjórnin jafnframt við upphaf vetrarþings, að loknu jólahléi, afhenda forseta Alþingis endurskoðaða áætlun um framlagningu stjórnarfrumvarpa á vetrar- og vorþingi.

Forsætisráðuneytið

Ný þingmál

  1. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna breytinga á Stjórnarráði Íslands
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum vegna ráðuneyta sem sameinuðust 1. september 2012.  (Haust)
  2. Frumvarp til laga um auðlindaarð í orkugeiranum
    Í frumvarpinu er fylgt eftir stefnumörkun af hálfu auðlindastefnunefndar sem forsætisráðherra skipaði sumarið 2011. Aðrar tengdar lagabreytingar varða t.d. auðlindareikning, sbr. frumvarp fjármála- og efnahagsráðherra um opinber fjármál. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á stjórnsýslulögum nr. 37/1993
    Með frumvarpinu verður stefnt að því að einfalda og samræma lagaákvæði um þagnarskyldu opinberra starfsmanna  og skýra skyldur þeirra varðandi meðferð trúnaðarupplýsinga. Frumvarpið styðst meðal annars við ábendingar frá stýrihópi mennta- og menningarmálaráðherra um framkvæmd þingsályktunar um að Ísland skapi sér afgerandi lagalega sérstöðu varðandi tjáningar- og upplýsingafrelsi. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um afnám laga um opinberar eftirlitsreglur nr. 27/1999
    Frumvarp um brottnám l. nr. 27/1999, sjá einnig skýrslu forsætisráðherra um vandaða lagasetningu. (Haust)
  5. Tillaga til þingsályktunar um vandaða lagasetningu
    Tillaga ríkisstjórnarinnar um stefnumörkun varðandi vandaðan undirbúning lagasetningar, sjá einnig skýrslu forsætisráðherra um sama efni. (Haust)

Endurflutt þingmál

  1. Frumvarp til upplýsingalaga
    Frumvarp til nýrra heildarlaga um aðgang almennings að upplýsingum. Frumvarpið var áður flutt á 139. og 140. löggjafarþingi. Frumvarpið hefur verið endurskoðað í samræmi við tillögur meirihluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. (Haust)

Skýrslur

  1. Skýrsla forsætisráðherra um málefni þjóðlendna
    Árleg skýrsla. (Vor)
  2. Skýrsla forsætisráðherra um starf samhæfingarnefndar um siðferðileg viðmið fyrir stjórnsýsluna
    Árleg skýrsla. (Vor)
  3. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd þingsályktana frá árinu 2011
    Árleg skýrsla. (Haust)
  4. Skýrsla forsætisráðherra um vandaða lagasetningu, áhrif laga um opinberar eftirlitsreglur o.fl.
    (Haust)
  5. Skýrsla nefndar  forsætisráðherra um stefnumótun í auðlindamálum ríkisins
    (Haust)

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið

Ný þingmál

  1. Breytingar á lögum nr. 99/1999 um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
    Eftirlitsgjald vegna greiðslu eftirlitsaðila á kostnaði við eftirlit Fjármálaeftirlitsins. (Haust)
  2. Breytingar á lögum nr. 160/2011 um svæðisbundna flutningsjöfnun
    Gildistími laganna er takmarkaður við 31. desember 2012. Lögð verður til framlenging á gildistímanum ásamt því að metið verður hvort að nýir útreikningar á flutningskostnaði gefa tilefni til breytinga á lögunum. (Haust)
  3. Breyting á lögum nr. 48/2003 um neytendakaup
    Gerðar verða nokkrar tillögur að breytingu á lögunum vegna ábendinga frá hagsmunaaðilum. Ábendingarnar varða m.a. gildissvið laganna, gallareglur og kærunefnd lausafjár- og þjónustukaupa. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um almannaheillasamtök
    Til álita kemur að setja heildarlöggjöf um þau frjálsu félagasamtök sem talist geta almannaheillasamtök, til að skjóta traustari stoðum undir starfsemi þeirra, svo og að setja sérstakar reglur um opið bókhald, opna ársreikninga og opna endurskoðun en slík ákvæði geta haft sérstakt gildi í tengslum við samningsgerð hins opinbera við samtökin. (Vor)
  5. Breytingar á lögum nr. 65/1993 um framkvæmd útboða (útboð með rafrænni aðferð)
    Lögin uppfærð til samræmis við lög um opinber innkaup, sér í lagi til að tryggja að framkvæmd rafrænna útboða sé möguleg. (Vor)
  6. Breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög
    Til athugunar hvort breyta eigi ákvæðum varðandi kennitöluflakk og hugsanleg endurskoðun vegna kaupa á eigin hlutum. (Vor)
  7. Frumvarp til laga um veðlán í íbúðarhúsnæði
    Unnið er að gerð sjálfstæðrar löggjafar um veðlán sem veitt eru einstaklingum vegna kaupa á íbúðarhúsnæði. (Vor)
  8. Frumvarp til laga um náttúruhamfaratryggingar
    Nefnd er að störfum um endurskoðun á lagaumhverfi náttúruhamfaratrygginga. (Vor)
  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 139/2001, um stofnun sameignarfyrirtækis um Orkuveitu Reykjavíkur
    Frumvarpið kveður á um breytingar í kjölfar uppskiptingar á sérleyfisstarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og annarri starfsemi sem fyrirhuguð er um áramót. Er það í samræmi við 14. gr. raforkulaga sem kveður á um aðgreiningu samkeppnis- og sérleyfisþátta í rekstri orkufyrirtækja. (Vor)
  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/2010, um ívilnanir vegna nýfjárfestinga á Íslandi
    Með frumvarpinu verður lagt til að heimild til greiðslu fjárfestingarstyrkja og þjálfunarstyrkja verði felld á brott en í þess stað verði aflað heimilda til að semja um skattleysi til ríkis og sveitarfélaga til tiltekins tíma. (Haust)
  11. Frumvarp til laga um heimild til samninga vegna uppbyggingar orkufreks iðnaðar á Bakka
    Með frumvarpinu verði aflað heimilda fyrir ríkissjóð til að koma að byggingu innviða samfara uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka við Húsavík. (Haust)
  12. Frumvarp til laga um breytingu á iðnaðarlögum nr. 42/1978
    Frumvarp þetta verður samið með hliðsjón af niðurstöðum og tillögum nefndar sem iðnaðarráðherra skipaði til að skoða hugsanlega endurskoðun iðnaðarlaga, en nefndin skilaði skýrslu með tillögum sínum til ráðherra í febrúar 2012. (Haust)
  13. Frumvarp til laga um samþættingu þeirra stofnana sem sinna atvinnuþróun, nýsköpun og byggðamálum
    Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í samvinnu við Byggðastofnun, Ferðamálastofu og Nýsköpunarmiðstöð vinnur að tillögugerð um samþættingu á starfsemi þessara stofnana í framhaldi af greiningarvinnu sem unnin var haustið 2010. Miðað er við að frumvarp verði lagt fram á haustþingi þar sem m.a. verði kveðið á um að ein löggjöf gildi um starfsemi þessara stofnana. (Haust)
  14. Frumvarp til laga um hitaveitur
    Með frumvarpinu er lagt til að ákvæði um hitaveitur verði sameinuð í ein heildarlög um hitaveitur en nú er fjallað um hitaveitur í orkulögunum frá 1967. Markmið laganna er að setja hitaveitum skýrari starfsramma, skilgreina réttindi og skyldur þeirra betur og gæta að neytendavernd í því sambandi. (Vor)
  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun
    Frumvarpið kveður á um breytingar á hlutverki Orkusjóðs. Lagt er til að aflað verði heimilda til að Orkusjóður geti tekið á móti tekjum, t.d. vegna sölu á upprunavottorðum raforku og að sjóðurinn geti verið aðili að alþjóðlegum rannsóknarverkefnum. Lagt er til að Orkuráð verði lagt niður en þess í stað komi þriggja manna stjórn fyrir sjóðinn. (Vor)
  16. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu
    Unnið er að endurskoðun ýmissa þátta laganna er lúta að gildissviði þeirra og samræmi við önnur lög. Jafnframt eru til skoðunar þau ákvæði laganna er varða eignarrétt að auðlindum og m.a. samræmi þeirra við ákvæði vatnalaga. (Vor)
  17. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, nr. 99/1993
    Ýmis ákvæði er varða framleiðslustýringu og sölu búfjárafurða endurskoðuð. Frumvarpið á að tryggja betur samkeppni og öryggi svínakjötsframleiðenda. Unnið með hliðsjón af fyrirliggjandi skýrslu um eflingu svínaræktar. (Haust)
  18. Frumvarp til laga um breyting á jarðalögum, nr. 81/2004 og ábúðarlögum, nr. 80/2004
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á skilyrðum fyrir eignarhaldi og nýtingu bújarða. Forsaga frumvarpsins er að vinnuhópur um endurskoðun jarða- og ábúðarlaga var skipaður með bréfi ráðherra. Vinnuhópurinn skilaði síðan af sér ítarlegri skilagrein ásamt vinnuskjali sem innihélt drög að ýmsum lagabreytingum. Í ráðuneytinu hefur málið verið unnið áfram með hliðsjón af niðurstöðum vinnuhópsins. (Haust)
  19. Frumvarp til laga um breytingu á búnaðarlögum nr. 70/1998
    Frumvarp verður flutt til að breyta lögunum vegna endurskoðunar og fyrirhugaðra breytinga á fyrirkomulagi leiðbeiningaþjónustu í landbúnaði. (Haust)
  20. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði nr. 61/2006
    Með frumvarpinu verða gerðar nokkrar breytingar á ákvæðum er varða deildaskiptingu veiðifélaga, sem reynsla sýnir að nauðsynlegar eru, auk annarara smávægilegra lagfæringa. (Haust)
  21. Áætlun um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu Íslands
    Í þingsályktun um stefnumörkun varðandi beinar erlendar fjárfestingar sem samþykkt var á síðasta þingi er ákvæði um að efnahags- og viðskiptaráðherra og iðnaðarráðherra skuli leggja fyrir Alþingi tímasetta áætlun um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu Íslands og efla markaðs- og kynningarstarf í því skyni. (Haust)

Innleiðingarmál (ný þingmál er varða innleiðingu EES-gerða)

  1. Frumvarp til laga um breytingu á raforkulögum, nr. 65/2003, og breytingu á lögum nr. 87/2003, um Orkustofnun
    Með frumvarpinu er lögð til breyting á raforkulögum sem felur í sér innleiðingu á s.k. þriðju raforkutilskipun ESB (2009/72/EB). Meðal annars er þar kveðið á um sjálfstæði eftirlitsaðila með raforkumarkaði o.fl. (Vor)
  2. Breytingar á lögum nr. 56/2010 um vátryggingarstarfsemi, lögum nr. 32/2005 um miðlun vátrygginga og lögum nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi
    Gera þarf nokkrar breytingar á lögunum vegna athugasemda ESA við innleiðingu á tilskipunum 2002/92/EB, 2001/17/EB, 2004/39/EC (lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi) og athugasemda fjármálaeftirlitsins. (Haust)
  3. Frumvarp um lánshæfismatsfyrirtæki
    Innleiðing á reglugerð 1060/2010. Í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1060/2009 eru settar reglur sem eiga að tryggja að öll lánshæfismöt sem gefin eru út af matsfyrirtækjum sem eru skráð innan Evrópusambandsins, séu af sambærilegum gæðum og unnin af matsfyrirtækjum sem lúta ströngustu reglum. Meginmarkmið reglugerðarinnar er að tryggja stöðugleika fjármálamarkaða og fjárfesta. (Haust)
  4. Breytingar á lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti
    Gera þarf smávægilegar breytingar á 122. gr. laganna vegna athugasemda ESA við innleiðingu á tilskipun 2003/6/EC um innherjasvik og markaðsmisnotkun. (Haust)
  5. Breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki
    Gera þarf nokkrar breytingar á lögunum vegna athugasemda ESA við innleiðingu á tilskipunum 2001/34 og 2009/111. Þessar breytingar varða eftirlitskerfi með áhættu, XII. kafla laganna um endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja og X. kafla laganna um laust fé og eigið fé fjármálafyrirtækja. Stærstu breytingarnar á lögunum verða hins vegar út af innleiðingu CRD IV. (tilskipun) og CRR (reglugerð) sem í meginatriðum varða ný Basel III viðmið og starfskjarastefnu fjármálafyrirtækja o.fl. Tilskipunin hefur verið samþykkt hjá Evrópusambandinu en reglugerðin liggur ekki endanlega fyrir. Evrópusambandið hefur ráðgert að reglurnar öðlist gildi á öllu EES svæðinu hinn 1. janúar 2013. Gera þarf breytingar á 36. gr., sem fjallar um tilkynningarskyldu til FME vegna stofnun útibús, í ljósi athugasemda ESA við innleiðingu á tilskipun nr. 2004/39/EC (MIFID).  Einnig er til skoðunar hvort að rétt sé að leggja til breytingar á ákvæðum VII. kafla laganna um stjórn fjármálafyrirtækja hvað varðar fjölda varamanna í stjórn fjármálafyrritækja og ákvæði um hæfi stjórnarmanna vegna ábendinga sem komið hafa fram á seinustu misserum. Þá er einnig verið að skoða breytingu á XI. kafla laganna um ársreikninga og endurskoðun hvað varðar störf endurskoðenda. (Haust)
  6. Innleiðing á tilskipun 2011/7 um greiðsludrátt í verslunarviðskiptum
    Um er að ræða endurútgáfu á tilskipun 2000/35/EC með sama heiti, auk nokkurra nýmæla. Tilskipun 2000/35/EC var innleidd í íslenskan rétt m.a. með lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Tilgangur tilskipunarinnar er að vinna gegn of löngum greiðslufresti og/eða greiðsludrætti í verslunarviðskiptum. Tilskipunin tekur til greiðslna í verslunarviðskiptum milli fyrirtækja eða milli fyrirtækja og opinberra aðila. Helstu nýmæli tilskipunarinnar felast í því að fyrirtæki skuli greiða reikninga innan 60 daga, nema sérstaklega sé samið um annað og ef slíkt er ekki bersýnilega ósanngjarnt. Við kaup opinberra aðila á vörum og þjónustu skuli greitt innan 30 daga og aðeins í undantekningartilvikum verði fresturinn 60 dagar. Gert er ráð fyrir að fyrirtæki skuli almennt eiga rétt á vöxtum vegna greiðsludráttar og geti ennfremur krafið um innheimtukostnað. Þá er kveðið á um lágmarksálag vegna álagningar vanefndaálags (dráttarvaxta). Innleiðingarfrestur tilskipunarinnar er 16. mars 2013. (Vor)
  7. Breytingar á lögum 56/2010 um vátryggingarstarfsemi
    Innleiðing á Solvency tilskipuninni. Þrjár meginbreytingar eru settar fram í tilskipuninni sem eiga að miða að heilbrigðari og traustari rekstri vátryggingafyrirtækja, Settar eru reglur um viðeigandi fjárhagsgrundvöll, stjórnarhætti, eftirlitsferli og opinbera upplýsingagjöf. ( (Haust)
  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 72/1994,  um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.
    Frumvarpið felur í sér innleiðingu á nýlegri tilskipun ESB. (Vor)

Endurflutt þingmál

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga
    Meginmarkmiðið með frumvarpi þessu er að skýra og lagfæra lög um ársreikninga með hliðsjón af þeim ábendingum sem komið hafa fram síðustu misseri. Í frumvarpinu er m.a. ætlunin að taka á skilum ársreikninga og leggja til breytingar á núgildandi lögum sem leggja störf endurskoðenda og skoðunarmanna að jöfnu, orðalagi varðandi starfrækslugjaldmiðil, gagnsæi eignarhalds og atkvæðisrétti hlutafa í hlutafélögum. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um bókhald, nr. 145/1994
    Frumvarp til laga um breytingar á lögum um bókhald verður lagt fram samhliða frumvarpi til laga um breytingar á lögum um ársreikninga. Meginmarkmið með þessu frumvarpi er að skýra og lagfæra atriði í lögum er varða bókhald og ársreikninga félaga með hliðsjón af ábendingum um hvað betur mætti fara í ljósi reynslu síðustu missera.  Í frumvarpinu eru m.a. lagðar til breytingar sem leiða af lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur, einnig er lögð til sú heimild að hafa texta bókhaldsbóka og ársreikninga á dönsku eða ensku. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um ökutækjatryggingar
    Með frumvarpinu er lagt til að sett verði sérlög um ökutækjatryggingar og bótaábyrgð vegna tjóns af völdum vélknúinna ökutækja. Ákvæði um þessi atriði er nú að finna í XIII. kafla gildandi umferðarlaga og reglugerð um lögmætar ökutækjatryggingar. Innanríkisráðherra hefur kynnt fyrir ríkisstjórn frumvarp til nýrra umferðarlaga en ekki er gert ráð fyrir ákvæðum um ökutækjatryggingar í því. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um breytingar á innheimtulögum, nr. 95/2008
    Með frumvarpinu verða lagðar til ýmsar breytingar á innheimtulögum m.a. vegna ábendinga FME sem hefur eftirlit með þeim aðilum sem hafa innheimtuleyfi. Helstu breytingartillögur snerta vernd fjár á vörslufjárreikningum, orðalag í innheimtuviðvörun varðandi næsta stig innheimtuaðgerða, starfsábyrgðartryggingu samkvæmt reglugerð, ákvæði um Lögmannafélag Íslands sem eftirlitsaðila en ekki úrskurðarnefnd lögmanna, Neytendastofu sem eftirlitsaðila með eigin innheimtustarfsemi aðila, flutning sérstaks eftirlits með innheimtu opinberra aðila frá Fjármálaeftirlitinu til Neytendastofu, lagaákvæði varðandi fjárhagslega stöðu innheimtuaðila, afturköllun innheimtuleyfis í stað leyfissviptingar og niðurfellingu innheimtuleyfis. Þá er m.a. gert ráð fyrir heimild til stjórnvaldssekta fyrir gróf eða ítrekuð brot gegn góðum innheimtuháttum. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um breyting á lögum um endurskoðendur
    Frumvarpið er lagt fram í kjölfar skýrslu nefndar um málefni endurskoðenda sem unnin var veturinn  2010-2011. Taka þarf til skoðunar önnur atriði skýrslunnar en fóru inn í frumvarpið, s.s. eftirlit með endurskoðendum og sameiningu skránna en gert er ráð fyrir að sú vinna taki lengri tíma. (Haust)
  6. Frumvarp til laga um sölu fasteigna og skipa
    Frumvarpinu er ætlað að koma í stað núgildandi laga um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa nr. 99/2004. Tilgangur frumvarpsins er að leggja grundvöll að því að viðskipti með fasteignir og skip, sem gerð eru með aðstoð fasteignasala, geti farið fram með greiðum og öruggum hætti fyrir kaupanda og seljanda og réttarstaða aðila sé glögg. Jafnframt að hlutverk fasteignasala og ábyrgð þeirra sé skýr og þeir séu engum háðir í störfum sínum. (Haust)
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/1999, um Byggðastofnun
    Frumvarp þetta var flutt á 140. löggjafarþingi og er nú endurflutt. Í  frumvarpinu er lagt til að ákvæði um kæruheimildir verði bætt við lögin þar sem kveðið verði skýrt á um að ákvarðanir Byggðastofnunar um veitingu lána eða ábyrgða séu ekki kæranlegar og því endanlegar á stjórnsýslustigi. (Haust)
  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála
    Frumvarp þetta var flutt á 140. löggjafarþingi og er nú endurflutt. Með frumvarpinu er lögð til endurskoðun ýmissa þátta laganna sem miða að því að setja skýrari ramma um leyfisveitingar og bæta úr þeim annmörkum sem upp hafa komið við framkvæmd laganna og að auka kröfur til leyfishafa um öryggi, gæði og fagmennsku gagnvart ferðamönnum. Breytingatillögur frumvarpsins snúa m.a. að verkefnum Ferðamálastofu, hlutverki og skipan ferðamálaráðs, kröfum til fyrirtækja vegna öryggismála, eftirliti og úrræðum þegar starfsemi er leyfislaus eða leyfishafi fer út fyrir mörk starfsleyfis. (Haust)
  9. Frumvarp til laga um stjórn fiskveiða
    Frumvarpið byggir á frumvarpi því um stjórn fiskveiða, sem lagt var fram á 140. löggjafarþingi, en jafnframt verður höfð hliðsjón af þeirri umfjöllun sem það frumvarp hlaut á Alþingi. (Haust)
  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum og tollalögum, nr. 88/2005
    Frumvarpið mælir fyrir um breytta framkvæmd við úthlutun tollkvóta til innflutnings á landbúnaðarafurðum til að koma til móts við álit umboðsmanns Alþingis, þar sem fram kom það mat að lagaheimildir ráðherra á þessu sviði væru í bága við stjórnarskrá. Frumvarpið var lagt fyrir 140. löggjafarþing en ekki afgreitt úr nefnd. Það verður nú endurflutt með einhverjum breytingum. (Haust)
  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um eftirlit með fóðri áburði og sáðvöru, nr. 22/1994
    Með frumvarpinu er annars vegar lagt til að við lögin bætist nýr kafli um ábyrgð stjórnenda áburðarfyrirtækja og áburðareftirlit, en hins vegar er skerpt á ýmsum ákvæðum til að skýra lögin og auka öryggi í eftirliti með og framkvæmd innflutnings á fóðri, áburði og sáðvörum. Frumvarpið var lagt fyrir 140. löggjafarþing en ekki afgreitt úr nefnd. Það verður nú endurflutt lítið breytt. (Haust)
  12. Frumvarp til laga um dýravelferð
    Meginmarkmið frumvarpsins er að stuðla að velferð dýra. Í frumvarpinu er lagt til að eitt ráðuneyti fari með forsjá löggjafarinnar og ein stofnun, Matvælastofnun, fari með framkvæmd málaflokksins. Er þetta í samræmi við samkomulag um að málaflokkurinn færist í heild sinni til atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra. Frumvarpið var lagt fram á 140. löggjafarþingi en ekki mælt fyrir því. Það hefur nú verið endurskoðað og verður lagt fram með nokkrum breytingum. (Haust)
  13. Frumvarp til laga um búfjárhald
    Með frumvarpi til laga um dýravelferð er að stærstum hluta verið að sameina löggjöf á sviði dýraverndar og búfjárhalds sem nú fellur undir bæði lög nr. 15/1994 um dýravernd og lög nr. 103/2002 um búfjárhald o.fl. Nokkur ákvæði er ekki að finna í frumvarpinu sem áður voru í lögum nr. 103/2002 þar sem þeim hefur verið fundinn staður með einum eða öðrum hætti í frumvarpi til laga um dýravelferð. Frumvarpið var lagt fram á 140. þingi samhliða frumvarpi um dýravelferð og mun fylgja því frumvarpi á ný. (Haust)
  14. Frumvarp til laga til breytinga á lögum, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, nr. 24/1986
    Afnám greiðslumiðlunar og innheimta félagsgjalda. Í kjölfar Hæstaréttardóms frá 2010 var nauðsynlegt að endurskoða greiðslufyrirkomulag, t.d. vegna greiðslna til hagsmunaaðila og stéttarfélaga. Frumvarpið var lagt fram á 139. löggjafarþingi en var ekki afgreitt. Verður nú flutt eftir endurskoðun með tilliti til umfjöllunar í þingnefnd. (Haust)

Innleiðingarmál (endurflutt mál er varða innleiðingu EES-gerða)

  1. Frumvarp til laga um neytendalán
    Með frumvarpinu er lögð til innleiðing á tilskipun 2008/48/EB um lánasamninga fyrir neytendur, sem unnið var af nefnd sem efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði 25. maí 2011. Tilgangur tilskipunarinnar er að endurskoða reglur um neytendalán til að auka neytendavernd og tryggja samræmt lagaumhverfi við veitingu neytendalána, auk þess að stuðla að aukinni neytendavitund um lánskjör og gera neytendum hægara um vik að bera saman ólíka lánssamninga.  (Haust)
  2. Frumvarp til laga um útgáfu og meðferð rafeyris
    Með frumvarpinu er lögð til innleiðing á tilskipun 2009/110/EB um stofnun og rekstur rafeyrisfyrirtækja og varfærniseftirlit með þeim (EMDII), sem unnið var af nefnd sem efnahags- og viðskiptaráðherra skipaði 25. maí 2011. Tilgangur með setningu EMDII var að endurskoða reglur um útgáfu og meðferð rafeyris, svo og rafeyrisfyrirtæki þar sem að eldri tilskipun um sama efni, var talin hamla þróun raunverulegs innri markaðar á Evrópska efnahagssvæðinu fyrir viðskipti með rafeyri. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995 (opinber hlutafélög o.fl.)
    Með frumvarpinu eru aðallega lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða opinber hlutafélög,  m.a. samspil starfsreglna og eigendastefnu, en auk þess er gert ráð fyrir vissum breytingum á ákvæðum um dagskrá og tillögur í hlutafélögum þar sem hlutir hafa verið teknir til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði (snertir innleiðingu EES-reglna).  Tillögurnar um opinber hlutafélög miða að því að auka gagnsæi í rekstri opinberra hlutafélaga með því að tryggja betra upplýsingastreymi til starfsmanna. Jafnframt verði lögmælt að starfsreglur stjórna opinberra hlutafélaga séu í samræmi við eigendastefnu ríkis eða sveitarfélaga eftir því sem við á. Tillögurnar eru taldar þjóna almannahagsmunum. Frumvarpið felur einnig í sér breytingu á innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2007/36/EB frá 11. júlí 2007 um nýtingu tiltekinna réttinda hluthafa í skráðum félögum. Komið hefur fram ábending um að innleiðing 6. gr. tilskipunarinnar, um rétt til að setja mál á dagskrá aðalfundar og til að leggja fram drög að ályktunum, sé ekki nægilega skýr hvað tímafresti snerti og er ætlunin að ráða bót þar á með því að bæta nýrri málsgrein við 86. gr. laganna.  (Haust)
  4. Frumvarp um breytingu á lögum nr. 90/1999 um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum
    Með frumvarpi þessu er lagt til að innleidd verði í íslenskan rétt þau ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2009/44/EB frá 6. maí 2009 sem lúta að breytingum á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 98/26/EB frá 19. maí 1998 um endanlegt uppgjör í greiðslukerfum og uppgjörskerfum fyrir verðbréf. Tilskipun 98/26/EB var innleidd með lögum nr. 90/1999, um öryggi greiðslufyrirmæla í greiðslukerfum.  (Haust)
  5. Frumvarp til breytinga á lögum nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum, með það að markmiði að innleiða efni tilskipunar 2009/65/EB um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum (UCITS). Tilskipunin leysir af hólmi fyrri tilskipanir um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum.  (Haust)
  6. Frumvarp til laga um breyting á lögum um rafrænar undirskriftir
    Gera þarf nokkrar breytingar á lögunum vegna innleiðingar á ákvörðunum framkvæmdastjórnarinnar er varða rafrænar undirskriftir í tengslum við þjónustutilskipunina sem og breytingar vegna ábendinga Neytendastofu sem annast eftirlit með vottunaraðilum.  (Vor)
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 42/2009, um visthönnun vöru sem notar orku
    Frumvarp þetta var flutt á vorþingi 2012 og er nú endurflutt. Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögunum sem felur í sér innleiðingu á tilskipun ESB nr. 2009/125/EB um visthönnun vöru. Um er að ræða minniháttar breytingar á gildandi lögum. (Haust)

Skýrslur

  1. Skýrsla um stöðu ferðaþjónustunnar
    Ráðherra mun leggja fram skýrslu um framvindu ferðamálaáætlunar 2011-2020, stefnu í umhverfismálum greinarinnar og nýtingu gistináttagjalds, dreifingu ferðamanna um landið m.a. með tilliti til náttúruverndar og möguleika á beinu flugi að utan til áfangastaða utan suðvesturhornsins. Einnig verða í skýrslunni tillögur um uppbyggingu ferðaþjónustunnar á breiðum grunni, frá grunnrannsóknum og nýsköpun að regluverki er snýr að öryggi ferðafólks og gæðum greinarinnar. (Haust)

Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ný þingmál

  1. Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2013
    (Haust)
  2. Frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2012
    (Haust)
  3. Frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2011
    (Haust)
  4. Frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum (bandormur)
    Í frumvarpinu verður m.a. lagt til að:
    • virðisaukaskattur af gistiþjónustu verði 25,5% frá 1. maí 2013
    • tóbaksgjald hækki umfram verðlag
    • lög um umhverfis- og auðlindaskatta, nr. 129/2009, verði gerð ótímabundin. Auk þess verða lagðar til minniháttar leiðréttingar á lögunum í samræmingarskyni
    • sérstakur fjársýsluskattur skv. 3. mgr. 71. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, verði lagður af en í staðinn verði fjársýsluskattur samkvæmt lögum um fjársýsluskatt, nr. 165/2011, hækkaður og álagður í tveimur þrepum
    • undanþága frá vörugjaldi af bifreiðum, sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum, verði afnumin í þrepum. Þá verður lagt til að hámark niðurfellingar vegna bílaleigubíla verði lækkað.
    • ýmis gjöld verði hækkuð vegna verðlagsbreytinga. Þessi gjöld eru m.a. gjald í framkvæmdasjóð aldraða, útvarpsgjald, áfengisgjald, olíugjald, bensíngjald, kolefnisgjald, bifreiðagjald, kílómetragjald og orkuskattur á rafmagn. Þá verða lagðar til breytingar á einstökum gjaldskrám í lögum um aukatekjur ríkissjóðs, nr. 88/1991
    • álagningu tryggingagjalds verði breytt, m.a. að teknu tilliti til fjárlagaforsenda um atvinnuleysi
    • vaxta- og barnabætur verði hækkaðar
    Frumvarpið verður samið af starfsmönnum ráðuneytisins að höfðu samráði við stofnanir ráðuneytisins. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um vörugjöld, nr. 97/1987
    Í frumvarpinu verður lagt til að álagningu vörugjalda á matvæli verði breytt þannig að hún styðji við ráðlögð manneldismarkmið. Þá verða lagðar til breytingar á álagningu vörugjalda á ýmsar vörur, s.s. tæki o.fl. í samræmingarskyni.
    Frumvarpið verður unnið í ráðuneytinu að fengnum tillögum starfshóps um endurskoðun vörugjalda á matvæli og starfshóps um endurskoðun vörugjalda á aðrar vörur en matvæli. (Haust)
  6. Frumvarp til laga um breytingu á tollalögum, nr. 88/2005
    Í frumvarpinu verða m.a. lagðar til breytingar á tollalögum er varða skemmtiferðaskip í innanlandssiglingum.
    Frumvarpið verður unnið í ráðuneytinu að fengnum tillögum starfshóps um skattlagningu skemmtiferðaskipa í siglingum innanlands. (Haust)
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og fleiri tengdum lögum
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar er varða þunna eiginfjármögnun, afleiður, afdráttarskatt af vöxtum til erlendra aðila og útsenda starfsmenn vegna yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga vorið 2011.
    Frumvarpið verður samið af starfsmönnum ráðuneytisins að höfðu samráði við stofnanir ráðuneytisins. (Haust)
  8. Frumvarp til laga um opinber fjármál
    Um er að ræða heildarlög um opinber fjármál, sem taka jafnt til ríkis og sveitarfélaga. Utan um verkefnið hefur haldið stýrihópur, og nokkrir undirhópar. Unnið hefur verið með skýrslur AGS og erlend löggjöf á þessu sviði höfð til fyrirmyndar.
    Frumvarpið verður samið af starfsmönnum ráðuneytisins að höfðu ítarlegu samráði við fulltúa hagsmunaaðila, stofnana og þings. (Haust)
  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna, nr. 70/1996
    Með frumvarpinu verður lagt til að ákvæði um flutning embættismanna verði rýmkuð.
    Frumvarpið verður samið af starfsmönnum ráðuneytisins að höfðu samráði við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bandalag háskólamanna og Alþýðusamband Íslands. (Haust)
  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um gjaldeyrismál, nr. 87/1992 (rýmkun heimilda, hækkun sekta, aukið eftirlit o.fl.)
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum til þess að rýmka heimildir, hækka sektir og auka eftirlit.
    Frumvarpið var samið af starfsmönnum efnahags- og viðskiptaráðuneytisins að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands. (Haust)
  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997
    Með frumvarpinu verða m.a. lagðar til breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða til skýringarauka.
    Frumvarpið verður samið af starfsmönnum ráðuneytisins að höfðu samráði við Fjármálaeftirlitið og Landssamtök lífeyrissjóða. (Haust)
  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr. 1/2007
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum, byggðar á niðurstöðum starfshóps sem skipaður var af fjármálaráðherra. (Haust)
  13. Frumvarp til laga um skipan opinberra framkvæmda og fasteignir ríkisins
    Með frumvarpinu verður lögð til ný skipan fasteigna- og framkvæmdamálum ríkisins. (Haust)

Endurflutt þingmál

  1. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld (Breytingar er varða framkvæmd o.fl.)
    Með frumvarpinu verða ákvæði 1. - 9. gr. frumvarps til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld, sem lagt var fyrir Alþingi á 140. löggjafarþingi 2011-2012, þingskjal 1047- 653. mál, lögð fram að nýju.
    Frumvarpið var samið af starfsmönnum ráðuneytisins að höfðu samráði við stofnanir ráðuneytisins. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um sölu ríkisins á eignarhlutum í fjármálafyrirtækjum
    Um er að ræða almenna rammalöggjöf um sölu eignarhluta ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum. Frumvarpið setur fram almenn viðmið um aðferðafræði við sölu eignarhluta ríkissjóðs í fjármálafyrirtækjum þannig að jafnræðis og gagnsæis sé gætt við söluna.
    Frumvarpið var samið af starfsmönnum ráðuneytisins að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands, Samkeppniseftirlitið, Fjármálaeftirlitið, forsætisráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneytið og Bankasýslu ríkisins. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um kjararáð, nr. 47/2006
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvörðun um laun og starfskjör forstöðumanna hlutafélaga og annars konar félaga sem eru að meiri hluta í eigu ríkisins, að skrifstofustjórar í Stjórnarráðinu verði ekki lengur taldir upp í 1. gr. laganna auk þess sem ráðinu verði heimilað að ráða sér skrifstofustjóra. (Haust)

Innleiðingarmál (endurflutt mál er varða innleiðingu EES-gerða)

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinber innkaup, nr. 84/2007
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum vegna innleiðingar á tilskipun Evrópusambandsins 2007/66/EB varðandi aukna skilvirkni í meðferð kærumála vegna gerðar opinberra samninga. (Haust)

Innanríkisráðuneytið

Ný þingmál

  1. Frumvarp til breytinga á almennum hegningarlögum (mútubrot)
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á mútuákvæðum almennra hegningarlaga þannig að alþingismenn og gerðarmenn í gerðardómi verði nú sérgreindir í ákvæðum um mútugreiðslur og mútuþágu. Þá taki refsiábyrgð vegna mútugreiðslna og mútuþágu erlendra opinberra starfsmanna jafnframt til erlendra gerðarmanna, erlendra kviðdómenda og manna sem eiga sæti í erlendum fulltrúaþingum sem hafa stjórnsýslu með höndum. Lagt er til að refsihámark fyrir brot vegna mútugreiðslna verði hækkað í fjögur ár. Þá verði stjórnendur og starfsmenn fyrirtækja, sem eru að hluta eða í heild í opinberri eigu, felldir undir gildissvið ákvæðis laganna sem mælir fyrir um mútubrot í almennri atvinnustarfsemi og lagt til að refsihámark fyrir brot gegn ákvæðinu hækki í þrjú ár. Tilefnið er m.a. fyrirhuguð fullgilding á viðbótarbókun við samning Evrópuráðsins á sviði refsiréttar um spillingu frá 15. maí 2003. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð sakamála nr. 88/2008
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða skilyrði til beitingar þvingunarúrræða í þágu rannsóknar sakamáls. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum nr. 19/1940. (öryggisráðstafanir)
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á VII. kafla laganna um öryggisráðstafanir þar sem fjallað er m.a. um úrræði vegna ósakhæfra einstaklinga. Með breytingunum er stefnt að betra samspili einstakra úrræða og skilyrðum fyrir beitingu þeirra. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um  útlendinga
    Heildarendurskoðun laganna með hliðsjón af skýrslu nefndar innanríkisráðherra og velferðarráðherra. Meðal markmiða frumvarpsins er að einfalda stjórnsýslu og bæta réttarstöðu útlendinga og hælisleitenda í samskiptum sínum við stjórnvöld við meðferð mála þeirra. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um fullnustu refsinga
    Um er að ræða heildarendurskoðun á lögum um fullnustu refsinga. (Haust)
  6. Frumvarp til laga um breyting á lögum um framsal sakamanna og aðra aðstoð í    sakamálum nr. 13/1984 (Evrópsk handtökuskipun)
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar vegna samnings Íslands við Evrópusambandið um framsal sakamanna þar sem gert er ráð fyrir að fyrirkomulag framsalsmála verði einfaldað. (Haust)
  7. Frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum nr. 19/1940
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ákvæðum laganna er varða kynferðisbrot gegn börnum nánar tiltekið 200. og 201. gr. laganna. (Haust)
  8. Frumvarp til breytinga á lögum um kosningar til sveitarstjórna nr. 5/1998
    Markmið frumvarpsins er að innleiða persónukjör í sveitarstjórnarkosningum hér á landi frá árinu 2014. (Haust)
  9. Frumvarp til breytinga á lögum um kosningar til Alþingis nr. 24/2000
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar er varða aðstoð við fatlaða í kjörklefa. (Haust)
  10. Frumvarp til breytinga á lögum um happdrætti nr. 38/2005 o.fl.
    Um er að ræða endurskoðun á ýmsum lögum er varða happdrætti og spilakassa. Meðal annars er lagt til að til komi ný ákvæði um eftirlitsgjald og breytta tilhögun eftirlits. (Haust)
  11. Frumvarp til breytinga á lögum um hafnir nr. 61/2005
    Með frumvarpi nu er stefnt að því að gera hafnarsjóði  fjárhagslega sjálfbæra. Byggir frumvarpið á niðurstöðu nefndar um fjárhagsvanda hafna en hún taldi brýnt að endurskoða grunnforsendur hafnalaga og styrkja fjárhagsgrundvöll hafna, breyta fyrirkomulagi gjaldheimtu hafna sem og þeirri aðferðafræði sem hafnalög mæla fyrir um hvað viðkemur styrkjum úr ríkissjóði til hafnaframkvæmda. (Haust)
  12. Breyting á lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995
    Um er að ræða breytingar á III. kafla laganna, annars vegar til að skýra hlutverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og hins vegar til að renna styrkari stoðum undir heimild sjóðsins til skerðingar framlaga til þeirra sveitarfélaga er hafa heildarskatttekjur a.m.k. 50% umfram landsmeðaltal,  af útsvari og fasteignaskatti á íbúa,  miðað við fullnýtingu þeirra tekjustofna. (Haust)
  13. Breyting á lögum um fólksflutninga og farmflutninga á landi nr. 73/2001
    Með frumvarpinu verður settur skýr rammi um farmflutninga á landi og fólksflutninga í atvinnuskyni sem tekur tillit til þeirra þróunar sem orðið hefur á þessu sviði að undanförnu. (Haust)
  14. Frumvarp til laga um breytingu á lögræðislögum, lög nr. 71/1997
    Breytingar eru lagðar fram m.a. með hliðsjón af ábendingum úr vinnu við mótun landsáætlunar í mannréttindamálum, t.d. varðandi það hverjir geta lagt fram beiðni um nauðungarvistun o.fl. (Vor)
  15. Frumvarp til laga um rafrænt lýðræði
    Lagt verður fram nýtt frumvarp til laga um rafrænt lýðræði. Með frumvarpinu verða innleiddar heimildir til að beita nýrri tækni til að framkvæma íbúakosningar hjá sveitarfélögum. (Haust)
  16. Breytingar á lögum um sanngirnisbætur, lög nr. 47/2010
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða það m.a. að stytta greiðslutímann og skýra betur hlutverk tengiliðs. (Haust)
  17. Þingsályktun um innanríkisstefnu
    Í fyrsta sinn er lögð fram þingsályktunartillaga þar sem mótuð er sameiginleg stefna um alla málaflokka innanríkisráðuneytisins með réttlæti, lýðræði og öfluga innviði að leiðarljósi.  Áætlanir ráðuneytisins, s.s. samgönguáætlun og landsáætlun um mannréttindi byggja á innanríkisstefnu. (Vor)
  18. Þingsályktun um landsáætlun í mannréttindamálum
    Þingsályktunin felur í sér aðgerðaráætlun um úrbótaverkefni á sviði mannréttindamála, m.a. með hliðsjón af alþjóðlegum úttektum sem fram hafa farið á stöðu mannréttindamála á Íslandi á síðustu mánuðum. (Haust)
  19. Þingsályktun um  upplýsingasamfélagið
    Þingsályktunin felur í sér markmið sem verða síðan hluti af innanríkisstefnu og framkvæmdaáætlun um þróun upplýsingasamfélagsins á Íslandi. Áhersla verður lögð á að nýta upplýsingatækni til að auka hagræðingu og bæta opinbera þjónustu. Sérstaklega verður horft til þess hvernig nýta megi Netið og tölvufærni íslensku þjóðarinnar til að auka möguleika almennings til lýðræðislegrar þátttöku. (Haust)

Innleiðingarmál (ný þingmál er varða innleiðingu EES-gerða)

  1. Frumvarp til laga um gerð samninga um hlutdeild í afnotarétti orlofshúsnæðis
    Með frumvarpinu eru innleidd ákvæði tilskipunar nr. 2008/122/EB um gerð samninga sem gerðir eru á skiptileigugrunni (e. timeshare). Tilskipunin fellir úr gildi eldri tilskipun um sama efni en sú tilskipun var innleidd í íslenskan rétt með lögum nr. 23/1997. (Haust)
  2. Frumvarp til breytinga á lögum um skaðsemisábyrgð nr. 25/1991
    Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar vegna athugasemda ESA um ábyrgðarreglur laganna.  (Haust)
  3. Breyting á lögum um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir nr. 46/2005
    Með frumvarpinu er innleidd tilskipun nr. 2009/44/EB frá 6. maí 2009, um breytingu á tilskipun  nr. 2002/47/EB um samninga um fjárhagslegar tryggingarráðstafanir. Tilskipun 2002/47/EB skapaði samræmt lagaumhverfi fyrir notkun fjárhagslegra tryggingaráðstafana (e. financial collateral arrangements) yfir landamæri og helsta breytingin með tilskipun 2009/44/EB er sú að ráðstafanir samkvæmt tilskipuninni ná einnig yfir skuldakröfur (e. credit claims). (Vor)

Endurflutt þingmál

  1. Frumvarp til vopnalaga
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á gildandi vopnalögum, nr. 16/1998. Í fumvarpinu er skilið á milli efnisflokka að því er varðar framleiðslu, innflutning, verslun og meðferð vopna. Undanþáguheimildir fyrir bönnuð skotvopn eru þrengdar og heimildir lögreglu til að afturkalla leyfi og haldleggja vopn, efni og tæki efldar. Með frumvarpinu eru einnig innleiddar tvær Evróputilskipanir sem teknar hafa verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið, annars vegar er varðar skotelda og hins vegar sprengiefni. Helst ber að geta þess að gerð verður krafa um að skoteldar verði CE-merktir og er það gert til að auka neytendavernd. (Haust) 
  2. Frumvarp um Farsýsluna, stjórnsýslustofnun samgöngumála
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á fót stofnun sem sinni stjórnsýslu og eftirliti á sviði samgöngumála. Myndun stofnunarinnar er hluti af heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana sem felur í sér að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslan og hins vegar Vegagerðin. Frumvarpið var áður flutt á 139. og 140. löggjafarþingi. (Haust)
  3. Frumvarp til breytinga á áfengislögum nr. 75/1998
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á þeim ákvæðum laganna er varða auglýsingar á áfengi og eftirlit með auglýsingum. Frumvarpið var áður flutt á 139. og 140. löggjafarþingi. (Haust)
  4. Frumvarp um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála
    Með frumvarpi þessu er lagt til að sett verði á fót stofnun sem sinni framkvæmdum og viðhaldi samgöngumannvirkja ásamt því að fara með   eignarhald og sinna rekstri þeirra. Myndun stofnunarinnar er hluti af heildarendurskoðun á skipulagi samgöngustofnana sem felur í sér að settar verði á fót tvær stofnanir, annars vegar Farsýslan og hins vegar Vegagerðin. Frumvarpið var áður flutt á 139. og 140. löggjafarþingi. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráð trúfélög
    Með breytingum á ofangreindum frumvörpum er stefnt að því að lífsskoðunarfélög fái sömu heimild til skráningar og trúfélög hafa samkvæmt lögum, með þeim réttindum og skyldum sem skáningu fylgir. Jafnframt verður lagt til að afnumið verði það fyrirkomulag að barn skuli frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess. Frumvarpið var áður lagt fram á 140. löggjafarþingi. (Haust)
  6. Frumvarp til breytinga á lögreglulögum nr. 90/1996
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skipulagi lögregluembætta o.fl. Frumvarpið var áður flutt á 139. og 140. löggjafarþingi. (Haust)
  7. Frumvarp til breytinga á lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989
    Með frumvarpinu verður lögð til breyting á stjórnsýsluumdæmum sýslumannaembætta í landinu þannig að þau verði 8 í stað 24. Markmið frumvarpsins er að fækka og stækka embættin og efla um leið stjórnsýslu ríkis í héraði. Frumvarpið var áður flutt á 140. löggjafarþingi. (Haust)
  8. Frumvarp til umferðarlaga (heildarendurskoðun)
    Ný umferðarlög. Frumvarpið var áður lagt fram á 138., 139. og 140. löggjafarþingi. (Haust)
  9. Frumvarp til laga um rannsókn samgönguslysa
    Frumvarp þetta felur í sér sameiningu laga um rannsókn sjóslysa,  laga um rannsókn flugslysa,  og laga  um rannsóknarnefnd umferðarslysa, í heildstæða löggjöf um slysarannsóknir í samgöngum. Frumvarpið var áður flutt á 138.,139. og 140. löggjafarþingi. (Haust)
  10. Frumvarp til breytinga á lögum um kirkjugarða, greftrun og líkbrennslu nr. 36/1993
    Lagðar til breytingar á ýmsum ákvæðum laganna er varðar útfarir og þjónustu við útfarir, óvígða reiti í kirkjugörðum ofl. Frumvarpið var áður flutt á 136. löggjafarþingi. (Haust)
  11. Frumvarp til laga um lénamál
    Með frumvarpinu er lagt til að settur verði lagarammi um lén sem hafa beina skírskotun til Íslands eins og t.d. lénið .is. Frumvarpið var áður flutt á 139. og 140.  löggjafarþingi. (Haust)
  12. Frumvarp til breytinga á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu nr. 34/1985
    Með lagafrumvarpi þessu er markmiðið að styrkja stoðir fyrir gjaldtöku upplýsinga úr þjóðskrá og skapa fjárhagslegan grundvöll til að hefja endurgerð tölvukerfa Þjóðskrár Íslands er varða skrána. (Haust)
  13. Tillögur til þingsályktana um tólf ára og fjögurra ára fjarskiptaáætlanir
    Með þingsályktunartillögunum verða gerðar tillögur um áætlun um samskiptamálefni stjórnsýslunnar, sett markmið um öruggar fjarskiptatengingar fyrir landið allt, tengihraða, gæði í fjarskiptum og net- og upplýsingaöryggi. Einnig um stefnumörkum og skipulag póstþjónustu. Þingsályktunartillagan
    var áður lögð fram á 140. löggjafarþingi. (Haust)

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Ný þingmál

  1. Frumvarp til bókasafnalaga
    Frumvarpinu er ætlað að koma í stað laga um almenningsbókasöfn, nr. 36/1997 og laga um Blindrabókasafn Íslands, nr. 35/1982. Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á lögum um Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn. Yfirlýstur tilgangur frumvarpsins er að efla starfsemi og samvinnu bókasafna þannig að þau geti sem best gegnt því hlutverki sínu að vera þekkingarveitur og fræðslustofnanir, sem halda uppi virkri og fjölþættri upplýsingaþjónustu á sem flestum sviðum og tryggja jafnframt varðveislu þess menningararfs sem bókasöfn hafa að geyma. Frumvarpið er samið af nefnd sem ráðherra skipaði upphaflega 24. júní 2003 og lauk endanlega störfum 10. október 2006. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um opinber skjalasöfn
    Markmið frumvarpsins er að tryggja vörslu og örugga meðferð opinberra skjala með réttindi borgaranna, hag stjórnsýslunnar og sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi.
    Meginmarkmið þeirrar endurskoðunar sem felst í frumvarpinu miðað við gildandi lög er að einfalda stjórnsýslu á málefnasviði Þjóðskjalasafnsins, skýra hana frekar með hliðsjón af fjölþættu hlutverki safnsins og stuðla að hagkvæmni og skilvirkni í rekstri þess. Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna
    Með frumvarpi um ný heildarlög fyrir Lánasjóð íslenskra námsmanna er stefnt að því að skýra tilgang og markmið námslánakerfisins og meta stöðu þess með hliðsjón af þróun námsframboðs og menntunar á háskólastigi. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu og er m.a. byggt á tillögum nefndar um endurskoðun á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með áorðnum breytingum. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um breyting á lögum um opinbera háskóla nr. 85/2008, með áorðnum breytingum (niðurlagning laga um búnaðarfræðslu, nr. 57/2009 og samstarfsnet opinberra háskóla)
    Í frumvarpinu er lagt til að starfsemi Hólaskóla -Háskólans á Hólum og Landbúnaðarháskóla Íslands verði felld undir lög um opinbera háskóla nr. 85/2008 og lög um búnaðarfræðslu falli brott. Þá er lagt til að lögfest verði samstarf opinberra háskóla sem nefnt er háskólanet. Við samþykkt laga nr. 63/2006 og flutning á forræði landbúnaðarskólanna frá landbúnaðarráðuneyti til menntamálaráðuneytis var ráð fyrir því gert að skólarnir yrðu síðar felldir undir almenn lög um opinbera háskóla. Frá árinu 2010 hafa opinberir háskólar haft með sér samstarf um margvíslega þætti kennslu og rannsókna til aukinnar hagræðingar og hugsanlegrar sameiningar. Með frumvarpinu er lagt til að þessi samstarfsvettvangur verði þróaður frekar með lögfestingu samstarfsins. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu í samvinnu við Samstarfsnefnd háskólastigsins. Ráðuneytið ráðfærði sig sérstaklega við LBHÍ og HH vegna breytinganna. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um tónlistarskóla
    Frumvarpinu er ætlað að koma í stað laga um fjárhagslegan stuðning við tónlistarskóla, nr. 75/1985. Í frumvarpinu felst tillaga að fyrstu heildarlöggjöfinni um starfsemi tónlistarskóla, jafnframt því sem frumvarpinu er ætlað að lögfesta það samkomulag sem gert var á milli ríkis og sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og afnám hindrana fyrir skólasókn utan lögheimilissveitarfélaga. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu og er m.a. byggt á tillögum nefndar um endurskoðun á lögum nr. 75/1985. (Haust)
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir
    Með frumvarpinu er m.a. stefnt að sameiningu Rannsóknasjóðs og Rannsóknarnámssjóðs og að Innviðasjóður taki við hlutverki Tækjasjóðs. Jafnfram verði hlutverk hans útvíkkað svo hann geti styrkt aðra innviði til rannsókna s.s. gagnagrunna. Þá er lagt til að Markáætlun á sviði vísinda og tækni verði veitt sérstök lagastoð. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu í samráði við helstu hagsmunaaðila, s.s. vísinda- og tækninefnd og háskóla. Frumvarpið hefur verið birt opinberlega til almennra athugasemda. (Haust)
  7. Frumvarp til laga um breytingu á  framhaldsskólalögum (nemaleyfisnefndir)
    Tilgangur frumvarpsins er að renna stoðum undir hlutverk og störf nemaleyfisnefnda. Nemaleyfisnefndir hafa verið starfræktar um árabil í sumum iðngreinum, t.d. í snyrtigreinum og matvæla- og veitingagreinum. Stefnt er að því að skipa slíkar nefndir fyrir flestar þær starfsgreinar er njóta fræðslu á framhaldsskólastigi. Með tilkomu opinberra styrkja til fyrirtækja sem annast kennslu nemenda á vinnustað (vinnustaðanámssjóður) má ætla að mikilvægi nefnda þessara aukist og verður því að vera skýr lagastoð fyrir hlutverki þeirra og starfssviði. Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Haust)
  8. Frumvarp til laga um breytingu á höfundalögum, 73/1972
    Frumvarpið er áfangi í heildarendurskoðun höfundalaga sem hófst árið 2009. Að þessu sinni eru lagðar til breytingar á 1. kafla laganna jafnframt því sem fjallað er um úrræði í þágu rétthafa. Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins. (Haust)
  9. Tillaga til þingsályktunar um menningarstefnu
    Með þingsályktunartillögunni er lögð fram heildstæð menningarstefna sem myndar ramma um framtíðarsýn og áherslur ríkisins í menningarmálum. Menningarstefnan byggir m.a. á niðurstöðum menningarþings, Menningarlandið 2010 – mótun menningarstefnu sem haldin var í apríl það ár. Þingsályktunartillagan er unnin á vegum menningarskrifstofu og byggð á skýrslunni: Sköpun, aðgengi og heildarsýn. (Haust)

Endurflutt þingmál

  1. Frumvarp til laga um breytingu á íþróttalögum (lyfjaeftirlit)
    Tilgangur frumvarpsins er að heimila ráðherra að fela þar til bærum aðila að hafa með höndum lyfjaeftirlit í íþróttum. Með því er verið að efna skuldbindingar íslenskra stjórnvalda um slíkt eftirlit, til samræmis við alþjóðasamninga UNESCO og Evrópuráðsins um lyfjaeftirlit. Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um Ríkisútvarpið – fjölmiðil í almannaþágu
    Frumvarpið er afrakstur  endurskoðunar á gildandi lögum um Ríkisútvarpið, nr. 6/2007, í ljósi reynslu af framkvæmd þeirra laga og til að bregðast  við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA. Frumvarpið er m.a. byggt á vinnu nefndar sem gerði tillögur um úrbætur á fjárhags- og lagaumhverfi Ríkisútvarpsins ohf.  Að auki eru tilefni lagabreytinganna athugasemdir frá ríkisstyrkjadeild Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að lög nr. 6/2007 samræmdust ekki ríkisstyrkjareglum EES samningsins. Frumvarpið er samið af nefnd ráðherra um endurskoðun laga nr. 6/2007 í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingar á bókmenntasjóði
    Tilgangur frumvarpsins er að koma á fót miðstöð íslenskra bókmennta er taki við hlutverki bókmenntasjóðs. Með frumvarpinu er fylgt eftir því kynningarstarfi á íslenskum bókmenntum sem fékkst með þátttöku Íslands sem heiðursgests á bókasýningunni í Frankfurt 2011. Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um sviðslistalög
    Markmið frumvarpsins er að efla íslenskar sviðslistir, kveða á um skipan og fyrirkomulag og búa þeim hagstæð skilyrði. Með sviðslistum er átt við leiklist, óperuflutning, listdans og skylda liststarfsemi sem heyrir ekki undir lög um aðrar listgreinar. Frumvarpið felur í sér endurskoðun á leiklistarlögum nr. 138/1998. Lagt er til að endurskoðuð lög nái til allra sviðslista og heiti því sviðslistarlög. Frumvarpið er samið á vegum ráðuneytisins í samráði við helstu hagsmunaaðila. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um breyting á fjölmiðlalögum nr. 38/2008 – eignarhaldsreglur
    Frumvarpinu er ætlað að tryggja betur fjölræði og fjölbreytni í fjölmiðlum. Með frumvarpinu eru uppfyllt ákvæði til bráðabirgða í fjölmiðlalögum um að mennta- og menningarmálaráðherra skuli skipa nefnd til að gera tillögur í frumvarpsformi um viðeigandi takmarkanir á eignarhaldi á fjölmiðlum. Þá er í frumvarpinu lagðar til nokkrar endurbætur á gildandi lögum í ljósi fram kominna athugasemda frá evrópskum eftirlitsstofnunum og fjölmiðlanefnd. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu og er m.a. byggt á tillögum nefndar ráðherra um eignarhald á fjölmiðlum. Gert er ráð fyrir að meta þurfi frumvarpið með tilliti áhrifa á samkeppni á fjölmiðlamarkaði, samkvæmt lögum um opinberar eftirlitsreglur auk þess að leggja mat á kostnað þess fyrir ríkissjóð. (Haust)

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið

Ný þingmál

  1. Frumvarp til náttúruverndarlaga
    Heildarendurskoðun náttúruverndarlaga.
    Frumvarpið er unnið af utanaðkomandi sérfræðingi og byggt á Hvítbók um náttúruvernd sem unnin var á vegum ráðuneytisins árið 2011. Frumvarpið fer í umsagnarferli. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um erfðabreyttar lífverur, nr. 18/1996
    Með frumvarpinu er áformað að innleiða ákvæði bókunar frá árinu 2000 við Samninginn um líffræðilega fjölbreytni, Cartagena Protocol on Biosafety. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu og er gert ráð fyrir að frumvarpið fari í umsagnarferli af hálfu ráðuneytisins. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um úrvinnslugjald nr. 162/2002
    Frumvarpið er vegna breytinga sem gerðar voru um síðustu áramót á tollskrá og hlutfallstöflu tollskrárnúmera sem áætlar þyngd umbúða úr pappa, pappír og plasti, sem er gjaldstofn úrvinnslugjalds við tollafgreiðslu. Einnig breytingar varðandi framleiðsluábyrgð á rafhlöðum í raftækjum. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu og  verður unnið í samráði við Úrvinnslusjóð og Tollstjórann í Reykjavík. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011
    Frumvarpið felur í sérheimildg til gjaldtöku vegna stjórnunar vatnamála. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu í samstarfi við Umhverfisstofnun og að höfðu samráði við hagsmunaaðila. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um breytingu á skipulagslögum nr. 123/2010
    Frumvarpið er vegna breytinga með hliðsjón af reynslu af framkvæmd laganna og vegna ákvæða um bótagreiðslur. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu í samstarfi við Skipulagsstofnun og gert er ráð fyrir að það fari í umsagnarferli af hálfu ráðuneytisins. (Haust)
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998
    Frumvarpið felur í sér  endurskoðun á eftirliti Umhverfisstofnunar og heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga ásamt því að settar verða heimildir til stjórnvaldssekta. Frumvarpið er samið í umhverfisráðuneytinu eftir undirbúningsvinnu í nefnd  á vegum ráðuneytisins. Gert er ráð fyrir að frumvarpið fari í umsagnarferli af hálfu ráðuneytisins og verður frumvarpið unnið í samstarfi við hagsmunaaðila. Meta þarf kostnaðaráhrif frumvarpsins á sveitarfélög. (Vor)
  7. Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu
    Tillaga til þingsályktunar um landsskipulagsstefnu er unnin á grundvelli 10. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. (Vor)
  8. Tillaga til þingsályktunar um framlög til landshlutaverkefna í skógrækt
    Í samræmi við 4. gr. laga um landshlutaverkefni í skógrækt, nr. 95/2006. Byggt á fyrirliggjandi skýrslu nefndar um landshlutaverkefni í skógrækt. (Haust)

Innleiðingarmál (ný þingmál er varða innleiðingu EES-gerða)

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003
    Frumvarpið er til innleiðingar á rammatilskipun um úrgang, 2008/98/EB. Frumvarpið varðar einnig breytingar vegna raf- og raftækjaúrgangs og endurvinnslu drykkjarvöruumbúða (Endurvinnslan hf.). Frumvarpið er samið í ráðuneytinu í samstarfi við Umhverfisstofnun, Úrvinnslusjóð og hagsmunaaðila. Meta þarf kostnaðaráhrif frumvarpsins á sveitarfélög. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um varnir gegn mengun hafs og stranda, nr. 33/2004
    Frumvarpið er til innleiðingar nokkurra EB-gerða, m.a. vegna refsiákvæða og tilskipunar 2005/35/EB, sbr. 2009/123/EB og móttökuaðstöðu í höfnum sbr. 2007/71/EB, 2000/59/EB. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu og verður unnið í samstarfi við önnur stjórnvöld og hagsmunaaðila. (Vor)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál nr. 70/2012
    Frumvarpið er vegna innleiðingar gerða, s.s. rg. ESB nr. 1193/2011 um sambandsskrá fyrir losunarheimildir. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um mannvirki nr. 160/2010
    Frumvarpið er til innleiðingar byggingavörureglugerðar ESB, nr. 305/2011 og einnig vegna breytinga með hliðsjón af reynslu af framkvæmd laganna. Frumvarpið er samið í ráðuneytinu í samstarfi við Mannvirkjastofnun og er gert ráð fyrir að það fari í umsagnarferli af hálfu ráðuneytisins. (Vor)

Endurflutt þingmál

  1. Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða
    Tillaga til þingsályktunar um áætlun um vernd og orkunýtingu landssvæða, er unnin á grundvelli 3. gr. laga nr. 48/2011. (Haust)

Innleiðingarmál (endurflutt mál er varða innleiðingu EES-gerða)

  1. Frumvarp til laga um  breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000
    Með frumvarpinu verða lagðar til breytingar á lögunum og viðaukum laganna í samræmi við ábendingar frá Eftirlitsstofnun EFTA.
    Frumvarpið var samið í ráðuneytinu og unnið af starfshópi með fulltrúum frá ráðuneytinu og Skipulagsstofnun. Frumvarpið fór  í umsagnarferli af hálfu ráðuneytisins. Frumvarp var lagt fram á 140. löggjafarþingi. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998
    Með frumvarpinu er lagt til að gerðar verði breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir er varða innleiðingu á þremur EB-gerðum - reglugerð (EB) nr. 66/2010 um umhverfismerki Evrópusambandsins, tilskipun 2008/50/EB um loftgæði og hreinna loft í Evrópu og tilskipun 2001/81/EB um landsbundin efri mörk losunar fyrir tiltekin loftmengunarefni. Með frumvarpinu er ætlunin að styrkja framkvæmd norræna umhverfismerkisins, sett verða ákvæði um færanlega starfsemi og endurskoðun starfsleyfa.
    Frumvarpið var samið í ráðuneytinu og unnið í samstarfi við hagsmunaaðila. Frumvarpið fór í umsagnarferli af hálfu ráðuneytisins. Kostnaðaráhrif frumvarpsins á sveitarfélög voru metin. Frumvarp var lagt fram á 140. löggjafarþingi.  (Haust)
  3. Frumvarp til efnalaga
    Með frumvarpinu er lögð til heildarendurskoðun á lögum um eiturefni og hættuleg efni og lögum um efni og efnablöndur.
    Frumvarpið var samið í ráðuneytinu. Frumvarpið fór í umsagnarferli af hálfu ráðuneytisins. Kostnaðaráhrif frumvarpsins á sveitarfélög hafa verið metin. Frumvarp var lagt fram til kynningar á 140. löggjafarþingi. (Haust)

Utanríkisráðuneytið

Ný þingmál

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Íslandsstofu, nr. 38/2010
    Um er að ræða frumvarp til framlengingar á markaðsgjaldi, sem er einn af tekjustofnum Íslandsstofu samkvæmt 5. gr. laganna, en samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögunum fellur gjaldið niður 1. janúar 2013 verði ekki annað ákveðið með lögum. (Haust)
  2. Tillaga til þingsályktunar um staðfesting samnings um aðild Króatíu að Evrópska efnahagssvæðinu
    Líkt og við stækkanir ESB 2004 og 2007 er nauðsynlegt að gera sérstakan samning vegna aðildar Króatíu að því er varðar þátttöku í Evrópska efnahagssvæðinu. (Vor)
  3. Tillaga til þingsályktunar um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013- 2016
    Samkvæmt 3. gr. laga um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands nr. 121/2008 skal ráðherra annað hvert ár leggja fram tillögu til þingsályktunar á Alþingi um áætlun stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands til fjögurra ára í senn. (Vor)

Endurflutt mál

  1. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Lýðveldisins Kólumbíu og landbúnaðarsamnings milli Íslands og Lýðveldisins Kólumbíu
    Tillaga sama efnis hefur áður verið lögð fram á Alþingi en hlaut ekki afgreiðslu. (Haust)

    Enn fremur er gert ráð fyrir að lagðar verði fram þingsályktunartillögur um fullgildingu alþjóðasamninga samhliða því sem frumvörp til nauðsynlegra lagabreytinga eru lögð fram af viðkomandi ráðherrum.

    Þá er gert ráð fyrir að lagðar verði fram þingsályktunartillögur til staðfestingar á ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem fela í sér breytingar á viðaukum og bókunum við EES-samninginn, eftir því sem slíkar ákvarðanir eru teknar.

    Loks er gert ráð fyrir að lagðar verði fram tillögur til þingsályktunar um staðfestingu væntanlegra fiskveiðisamninga vegna ársins 2013, m.a. samninga um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum og samnings milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu.

Velferðarráðuneytið

Ný þingmál

  1. Frumvarp til laga um breytingu á barnaverndarlögum nr. 80/2002
    Lagt til að gildistöku ákvæðis um flutning á stofnunum frá sveitarfélögum til ríkis verði frestað til 1. janúar 2014. (Haust)
  2. Frumvarp um breytingu á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008 og lyfjalögum nr. 93/1994
    Frestun á gildistöku ákvæða um greiðsluþátttöku í lyfjakostnaði til 1. júní 2013.  (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar nr. 112/2008. (samningar við opinberar heilbrigðisstofnanir og rekstraraðila hjúkrunarheimila.)
    Vegna fyrirhugaðs flutnings málefna aldraðra til sveitarfélaga verði gildistöku ákvæða um samninga Sjúkratrygginga við þá sem reka hjúkrunarheimili frestað og bráðabirgðaákvæði um heimild ráðherra til að ákveða daggjöld vegna heilbrigðisþjónustu á hjúkrunarheimilum frestað.  Þá verði kveðið skýrar á um afmörkun samninga Sjúkratrygginga við heilbrigðisstofnanir.  (Haust)
  4. Frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum vegna áforma í fjárlagafrumvarpi 2013
    Breytingar á lögum nr. 125/1999 um málefni aldraðra (gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra), lögum nr. 100/2007 um almannatryggingar, (frítekjumark), lögum nr. 166/2011 um greiðslu kostnaðar við rekstur umboðsmanns skuldara (breyting á hlutfalli af álagningarstofni) o.fl. lögum. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir  nr. 36/1994
    Markmið frumvarpsins er að stemma stigu við notkun ungs fólks  á reyklausu tóbaki og markaðssetningu þess fyrir þann aldurshóp. Ákvæði um neyslu reyklauss tóbaks í framhaldsskólum og sérskólum verði samræmt gildandi ákvæðum um tóbaksreykingar. Felld verði brott undanþága fyrir innflutning, framleiðslu og sölu á skrotóbaki.  (Haust)
  6. Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum nr. 36/1994 og lögum um húsnæðissamvinnufélög nr. 66/2003
    Endurskoðun með hliðsjón af gildandi húsnæðisstefnu.  Byggt á tillögum samráðshóps um húsnæðisstefnu, sbr. skýrslu hópsins frá apríl 2011.  M.a. verða skoðuð sérstaklega réttindi leigjenda gagnvart stærri leigusölum, þ.e. félögum, uppsagnir húsaleigusamninga, tryggingafé og þinglýsingar á húsaleigusamningum. (Haust)
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsaleigubætur nr. 138/1997
    Vinnuhópur um húsnæðisbætur lagði fram tillögur um nýtt húsnæðiskerfi í skýrslu sinni í maí 2012.  Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að fyrstu skref í þá átt verði tekin og húsaleigubætur verði aðlagaðar hinu nýja kerfi. Auk þess er í frumvarpinu brugðist við athugasemdum sem fram hafa komið að því er varðar framkvæmd laganna.  (Haust)
  8. Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun
    Með þingsályktun sem samþykkt var á 140. löggjafarþingi var velferðarráðherra  falið að skipa starfshóp til að undirbúa frumvarp til laga „sem heimili  staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni.“  Í frumvarpinu verður lögð áhersla á að tryggja hag og réttindi barnsins, sjálfræði og velferð staðgöngumóður og fjölskyldu hennar og farsæla aðkomu verðandi foreldra.  Lögð verður áhersla á traustan lagaramma, ströng skilyrði og skýrar verklagsreglur um framkvæmd og um eftirlit með staðgöngumæðrun. (Haust)
  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010
    Endurskoðun laganna vegna hnökra sem komið hafa í ljós við framkvæmd þeirra.  (Haust)
  10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007 og ákvæðum fleiri laga um úrskurðar- og kærunefndir á sviði velferðarþjónustu
    Átta úrskurðar- og kærunefndir starfa á málefnasviði ráðuneytisins.  Kærum hefur fjölgað gífurlega á síðustu árum og voru þær yfir eittþúsund á árinu 2011.  Í frumvarpinu verður lagt til að fyrrgreindar nefndir verði sameinaðar í eina nefnd, úrskurðarnefnd velferðarmála, og að hluti nefndarmanna verði í fullu starfi. (Haust)
  11. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um geislavarnir nr. 44/2002
    Aðlögun að breytingum  á alþjóðavettvangi, m.a. nýjum ráðleggingum frá Alþjóða geislavarnaráðinu, nýjum öryggisstöðlum Alþjóða kjarnorkumálastofnunarinnar og breytingum á löggjöf ESB. Aukin áhersla á geislavarnir sjúklinga og viðbúnað vegna geislavár og að umfang og tíðni eftirlits endurspegli áhættu vegna notkunar.  (Haust)
  12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 o.fl. lögum
    Eftirlit með velferðarþjónustu verði sameinað og embætti landlæknis og lýðheilsu falið að annast eftirlit með allri velferðarþjónustu.  Ákvæði um aðgangsheimildir landlæknis vegna eftirlits og ákvæði um heimild til að vísa ágreiningi um aðgang að sjúkraskrá til landlæknis verði gerð skýrari. (Haust)
  13. Frumvarp til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði (heildarlög) og breytingar á lögum um lífsýnasöfn nr. 110/2000
    Markmið frumvarpsins er að setja skýrar reglur um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og stuðla þannig að vönduðum vísindarannsóknum ásamt því að tryggja hagsmuni þátttakenda.  Frumvarpið er jafnframt hluti af undirbúningi fullgildingar viðbótarbókunar með sáttmála Evrópuráðsins um mannréttindi og líflæknisfræði (Oviedo sáttmálinn).  Í breytingum á lögum um lífsýnasöfn verður kveðið á um söfn heilbrigðisupplýsinga þar sem varðveittar verði heilbrigðisupplýsingar sem aflað var til vísindarannsókna eða urðu til við framkvæmd hennar.  Opinberum heilbrigðisstofnunum verði heimilt að starfrækja leitargrunn til að kanna fýsileika vísindarannsóknar að fengnu leyfi ráðherra. Lagt fram samhliða frumvarpi til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. (Haust)
  14. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um málefni aldraðra nr. 125/1999, lögum um almannatryggingar nr. 100/2007,  o.fl. lögum
    Í frumvarpinu verða lagðar til nauðsynlegar breytingar á lögum vegna fyrirhugaðs flutnings öldrunarþjónustu til sveitarfélaga.  (Vor)
  15. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, með síðari breytingum
    Gert er ráð fyrir fyrstu skrefum til endurheimtu fæðingarorlofsgreiðslna.  Lagt verður til að hlutfall af meðaltali heildarlauna sem miðað er við í útreikningum á fæðingarorlofsgreiðslum verði fært til fyrra horfs og hámarkgreiðslur úr fæðingarorlofssjóði verði hækkaðar. Þá verður lagt til að fæðingarorlof foreldra lengist í áföngum á næstu árum. (Haust)    
  16. Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2020
    Heilbrigðisáætlun til ársins 2020 sem leysi af hólmi heilbrigðisáætlun til ársins 2010, sem samþykkt var sem þingsályktun árið 2001.  Í nýju heilbrigðisáætluninni er leitast við að móta skýra framtíðarsýn í heilbrigðismálum þjóðarinnar.  Þar verður m.a. gerð grein fyrir aðgerðum sem ætlað er að bæta almennt heilsufar þjóðarinnar og tryggja að íbúar landsins búi við sem  jafnastan kost í heilsufarslegum efnum.  Haft hefur verið náið samráð við fjölmarga hagsmunaaðila og notendur þjónustunnar.  (Haust)

Innleiðingarmál ( ný þingmál er varða innleiðingu EES-gerða)

  1. Frumvarp til laga um bann við mismunun á vinnumarkaði
    Innleiðing tilskipunar 2000/78/EB um bann við mismunun á vinnumarkaði.  (Haust)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008
    Lagðar verða til breytingar vegna álits Eftirlitsstofnunar EFTA  (ESA) þess efnis að lögin endurspegli ekki nægilega vel orðalag tilskipunar um jöfn tækifæri og jafna meðferð karla og kvenna á vinnumarkaði.  Þá verða lagðar til nauðsynlegar breytingar vegna innleiðingar tilskipunar 2004/113/EB um jafna meðferð kvenna og karla við afhendingu vöru og þjónustu.  (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar nr. 100/2007
    Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að kerfið verði einfaldað með fækkun bótaflokka og einfaldari reglum um útreikning bóta.  Jafnframt verði leitast við að tryggja jafnræði og gott aðgengi. Enn fremur breytingar með hliðsjón af starfi vinnuhópa um fjölskyldubætur (barnatryggingar) og um greiðslur til foreldra langveikra og/eða fatlaðra barna þar sem markmiðið hefur verið einföldun á þeim kerfum, þ.á m. til að tryggja betur jafnræði. Þá verða lagðar til nauðsynlegar breytingar vegna innleiðingar Evrópureglugerðar 883/2004/EB um almannatryggingar.  (Haust)
  4. Frumvarp til laga um lögfestingu Norðurlandasamnings um almannatryggingar
    Nýr samningur var undirritaður í júní 2012. Endurskoðun vegna nýrra reglugerða Evrópusambandsins um almannatryggingar og breytinga sem orðið hafa á almannatryggingalöggjöf ríkjanna. Gert er ráð fyrir að nýi samningurinn verði lögfestur eins og eldri samningur.  (Haust)
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lyfjalögum nr. 93/1994 (framleiðsla og dreifing lyfjablandaðs dýrafóðurs)
    Innleiðing á tilskipun Evrópusambandsins um skilyrði sem hafa áhrif á blöndun, markaðssetningu og notkun lyfjablandaðs fóðurs í bandalaginu.  (Haust)
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007
    Reglugerðarheimild vegna innleiðingar á tilskipun 2010/53/ESB um gæði og öryggi við líffæragjafir. (Haust)
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum nr. 61/1999
    Innleiðing á tilskipun 2009/38/EB um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum. Fyrrgreind tilskipun er endurútgáfa á tilskipun 94/45/EBE um evrópsk samstarfsráð í fyrirtækjum með síðari breytingum.  (Haust)
  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980
    Innleiðing gerða Evrópusambandsins og vinnuvernd þeirra sem koma til með að starfa við leit, rannsókn og vinnslu kolefna á sjó.  Þá verða ennfremur lagðar til breytingar á viðurlagaákvæðum laganna. (Haust)

Endurflutt þingmál

  1. Frumvarp til laga um málefni innflytjenda
    Lagt er til að starfsemi Fjölmenningarseturs, innflytjendaráðs og þróunarsjóðs innflytjenda verði lögfest.  (Haust)

Innleiðingarmál (endurflutt mál er varða innleiðingu EES-gerða)

  1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, nr. 45/2007. (laun í veikindum, EES-reglur)
    Frumvarpið er lagt fram til að framfylgja dómi EFTA-dómstólsins í máli E-12/10.  Dómstóllinn taldi að ákvæði um rétt til launa í veikinda- og slysatilfellum og slysatryggingar vegna andláts, varanlegs líkamstjóns og tímabundins missis starfsorku væru ósamrýmanleg EES- samningnum.  (Haust)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um lækningatæki nr. 16/2001.  (eftirlit, gjaldtaka, skráning o.fl., EES-reglur)
    Lagt til að innflytjendum lækningatækja og þeim sem bera ábyrgð á markaðssetningu verði gert skylt að skrá vöruna hjá Lyfjastofnun og að kveðið verði á um heimild til töku eftirlitsgjalds.  (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um ábyrgðarsjóð launa nr. 88/2003. (staðfesta vinnuveitanda og miðlun upplýsinga, EES-reglur)
    Komið til móts við athugasemdir Eftirlitsstofnunar EFTA vegna innleiðingar á tilskipun 2008/94/EB um vernd starfsmanna við gjaldþrot vinnuveitanda.  (Haust)
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um starfsmannaleigur  nr. 139/2005
    Innleiðing á tilskipun 2008/104/EB um starfsmannaleigur.  Markmið tilskipunarinnar er að tryggja starfsmönnum starfsmannaleigna starfskilyrði sem samræmast þeim sem almennt tíðkast, svo sem varðandi aðbúnað, vinnutíma og orlof.  (Haust)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum